Númerslausar bifreiðar og lausamunir

Fjallað er um ábyrgð eiganda eða umráðamanns húss eða mannvirkis í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti í 18. gr, 1. mgr.: ,,Eigandi eða umráðamaður húss eða mannvirkis skal halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð og girðingum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði“. Í 20. gr. 1. mgr. segir: ,,Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti“ og í 21. gr. segir ,,Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum”.

Í reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs m.s.br. er fjallað um heimild fyrir ákvörðun um lóðahreinsun og eða að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar eða bílflök og lausamuni, í 16. gr.: ,,Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni.”.

Nefndin getur krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið.

Nefndinni er heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum.

Heilbrigðisnefnd getur látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu“.

Númerslausar bifreiðar, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir 

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands notar límmiða við álímingar á númerslaus ökutæki, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilega hluti. Límmiðarnir eru settir til þess að ná athygli eiganda/umráðamanns hlutarins enda má ætla að hluturinn sé undir eftirliti og í umhirðu hans. Á miðunum koma fram upplýsingar um hvað standi til.

Miðinn er límdur á áberandi staði og þannig að hann sé vel sýnilegur.

Sé miði límdur á hlut hefur Heilbrigðiseftirlitið tekið stjórnvaldsákvörðun um að fjarlægja hlutinn innan þess frests sem ákveðinn er. Límt er á hluti sem standa á almenningssvæðum eða lóðum í eigu sveitarfélagsins á starfssvæði embættis Heilbrigðiseftirlits Vesturlands

Miði er límdur á hluti sem standa á bílastæðum, á og við götur/vegi innan sveitarfélagsins eða götum/vegum í umsjá Vegagerðarinnar á starfssvæði embættisins og að sama skapi geta lóðarhafar óskað eftir að límt sé á hluti sem skildir hafa verið eftir á lóð í leyfisleysi. Sé um sameiginlega lóð t.d. við fjöleignahús sjá húsfélög sjálf um að láta fjarlægja hlutinn enda liggur þá fyrir samþykktar húsreglur þess efnis að ekki sé heimilt að geyma t.d. númerslausa bíla á sameiginlegri lóð.

Eiganda eða umráðamanni er gefinn 10 daga frestur til að fjarlægja hlutinn. Fresturinn getur verið styttri sé talið að hluturinn geti valdið skaða, mengun eða lýti á umhverfinu eða hamlar framkvæmdum eða umferð að mati sveitarfélags  eða lögregluyfirvalda.

Heimilt er að geyma númerslausar bifreiðar sem eru inni á skilgreindu bílastæði einkalóðar nema ef talin er mengunar- eða slysahætta af bifreiðinni.

Skilagjald á ökutæki 

Eigandi ökutækis getur fengið skilagjald fyrir ökutæki sitt eftir afhendingu til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald verið greitt. Gámastöðin við Sólbakka tekur við bifreiðum og undirbýr hreinsun spilliefna til endurvinnslu.

Frekari upplýsingar um skilagjald má finna á heimasíðu Úrvinnslusjóðs

Að afloknum fresti 

Hafi eigandi hlutar ekki brugðist við að afloknum fresti sem gefinn er á límmiða, þá er hann fluttur á geymslusvæði og kostnaður sem fellur á eiganda  getur verið nokkur.

Málsskot 

Um valdsvið og þvingunarúrræði heilbrigðiseftirlits vísast í 60. og 61. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimilt er að kæra málsmeðferð og aðgerðir Heilbrigðiseftirlits til sérstakrar úrskurðarnefndar sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Slík kæra eða málsskot frestar þó ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar 

Hægt er að hafa samband við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands með því að senda tölvupóst á eftirlit@hev.is.